Bernskuminning

Ef Kaninn fer þá koma Rússarnir daginn eftir !!!

Mikið hefur breyst síðan ég ólst upp í Njarðvík hér á áttunda og níunda áratugnum (fæddur 1974). Í kaldastríðinu héldum við strákarnir allir með Kananum á móti Sovét, annað hefði verið svik við málstaðinn. Við hneyksluðumst á Keflavíkurgöngum og herstöðvar-andstæðingum. Þetta fólk vissi nefnilega ekki eins mikið um málin og við strákarnir. Við vissum að ef Kaninn færi þá kæmu Rússarnir daginn eftir. (töluðum yfirleitt um Rússa þó þetta væru Sóvet-menn)

Það yrði skelfilegt, í raun endir á svo mörgu góðu sem við þekktum. Við hlustuðum á Kanann í útvarpinu (kana-sjónvarpið því miður hætt á þessum árum) enda engin tónlist að okkur mati á gufunni (engin Rás2). Við hættum að fá útlenskt nammi frá börnum varnaliðs-starfsmanna og litlu flottu Kornflex pakkana sem innihéldu allskonar tegundir sem ekki fengust á "Íslandi" heldur bara á vellinum. Kalda stríðið snerti okkur djúpt. Við vissum svo mikið, við vissum t.d. að það væru 3 kjarnorkusprengjur í Rússlandi sem væru stilltar beint á Ísland. Við sem bjuggum við völlinn voru því daglega í lífshættu - vonandi ýtti enginn óvart á takkann.

Hér áður fyrr var auðvelt að komast inn á völlinn. Grænásblokkirnar voru inn á svæðinu og við sögðumst vera á leiðinni til vinar okkar. Vissum auðvitað hverjir bjuggu þar, lugum að löggunni og gengum að blokkinni. Laumuðumst svo yfir móann og skelltum okkur í keilu. Síðan var líka gott að eiga dollara því þá gátum við sjálfir keypt nammi í sjálfsölunum sem voru í anddyrum flestra blokkanna. Á þessum árum var ekki auðvelt að kaupa dollara, þurfti að framvísa farseðli í bankanum. Fyrir sunnan seldu þó leigubílstjórar dollara - ekki bara áfengi. Já lífið var ljúft í gamla daga, þetta breyttist þó á unglingsárum mínum og erfiðara var að komast uppeftir. Girðingin var færð ofar og flugstöðin ekki lengur inn á svæðinu.

Aðal leikvöllur krakkana sem bjuggu okkar megin við Þjóðveginn (ofan við þjóveginn miðað við sjóinn) var gömul braggabyggð. Þar fyrir neðan var síðan hjóla-vegur, í raun heilt gatnakerfi markað ofan í móann og moldina. Hjólavegurinn endaði við varnar-girðingunna og við sáum oft hermenn aka þar fyrir innan á herjeppunum sínum. Stundum stoppuðu þeir og kíktu yfir svæðið. Sennilega hefur þeim fundist þetta skondin sjón að sjá tugi krakka þegar best lét á hjólunum sínum í drullu og mold. Þeir sáu okkur sem sakleysingja en það var ekki gagnkvæmt, oft stukkum við niður í börðin og földum okkur. Stöku sinnum sáu þeir hugrökku sem ráku höfuðið upp úr moldarbarðinu að hermennirnir voru með rifflana sína og horfðu í gegnum kíkinn.Í dag grunar mig að engir hafi rifflarnir verið í þessum bílun - alla vega notuðu þeir þá ekki sem kíki. Hitt gerði lífið svo skemmtilegt og spennandi, við upplifðum okkur sem þátttakendur í blóðugu stríði.Kalda stríðið var þó aldrei stríð heldur pólítísk spenna og pissukeppni, þó ógnin væri vissulega til staðar.

Á síðasta ári fór síðan herinn og skildi allt dótið eftir. Tóku þó keilubrautirnar með sér held ég og sjálfsalana en blokkirnar standa þar enn. Ég verð að gera mér ferð suður á Völl og skoða þetta. Nú loksins loksins eru Rússarnir komnir, eitthvað sem við strákarnir vissum alltaf að myndi gerast. Þeir eru bara ári of seinir, komu ekki daginn eftir líkt og við óttuðumst hér á hjólastígnum.

Björn Árni - fyrrum kaldastríðs barn


mbl.is Rússneskar sprengjuflugvélar fóru inn á íslenska flugstjórnarsvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband