Færsluflokkur: Bloggar

14. eða 15. ?

14. eða 15. ? Hér kemur fram að Önverðarness-völlurinn sé á 14. í fullri stærð. Ég veit reyndar ekki hvað felst í orðunum “full stærð” en ef það eru 18 holur þá ætti þessi völlur að vera númer 15 á landinu. Í bókinni Golf á Íslandi – Handbók kylfingsins 2008  (GSÍ) eru taldir upp fimmtán 18 holu vellir. Ég er nýliði í sportinu og það kom mér á óvart þegar ég skoðaði bókina hvað margir vellir eru 9 holur. 18 holu vellir eru annars þessir: 
  1. Keilir - Hafnarfirði
  2. Urriðavöllur – “Oddfellow völlurinn”
  3. Kópavogur/Garðabær
  4. Grafarholtsvöllur
  5. Korpúlfsstaðavöllur
  6. Leynir – Akranes
  7. Borgarnes
  8. Akureyri
  9. Vestmannaeyjar
  10. Hella
  11. Flúðir
  12. Kiðjaberg
  13. Þorlákshöfn
  14. Leiran
  15. Öndverðarnes ?
 Það vakti athygli mína að 18 holu vellirnir eru allir í nágrenni höfuðborgarsvæðisins eða á því. Ef frá eru taldir vellirnir á Akureyri og Vestmannaeyjum, á hina vellina er ekki mikið meira en 60-90 mínútna akstur. Tók fram að ég er ekki sérfræðingur í þessum golfvallar-málum og það getur verið að einhver af völlunum teljist ekki full stærð, hvað svo sem það þýðir. En ég vildi alla vega vekja athygli á þessu. Björn Árni Ólafsson

 


mbl.is Öndverðarnesvöllur stækkaður í 18 holur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Laus helíumblaðra í Smáralind

Laust fyrir klukkan 13 í dag var tilkynnt um helíum blöðru sem væri laus í Smáralind. Þar sem hátt er til lofts reynist erfitt að greina hvers kyns blaðran er, en sjónarvottar telja þetta vera “Dora the Explorer” eða Dóra Landkönnuður eins og hún heitir í íslensku sjónvarpi. Mikil geðshræring greip um sig á staðnum enda vissu gestir Smáralindar að engin aðgerðaráætlun væri til í landinu vegna lausra helíum blaðra. 

Slík áætlun hefur þó verið í smíðum síðan Kringlan var vígð en nefndin sem var skipuð fullvann aldrei drögin og því liggur aðgerðar-áætlunar-drögin ofan í skúffu í loftmálaráðuneytinu. Skyttur eru komnar á staðinn en það er bara svona “just in case” að blaðran færi á skrið og ógnaði einhverju lifandi. Eins er daginn farinn að stytta og menn vilja ekki missa blöðruna í myrkrið sem skellur á einhvern daginn. 

Klárunn Ísbjarnardóttir loftmálaráðherra hefur verið í sambandi við Danskan starfsmann í Tivoli í Kaupmannahöfn. Þar vinna menn sem eru mjög vanir blöðrum þó þeir hafi aldrei fangað blöðru sem er villt. Ekki er til búr í landinu til að setja blöðruna í og geyma, en sá Danski ætlar að koma með eitt stykki búr með sér. Björtustu vonir manna eru þær að hægt verði að fanga blöðruna og koma henni til síns heima. Til þess að það gerist verður allt að ganga upp og enginn trekkur að koma að blöðrunni. 

Vísindamenn vita ekki hvort lausung blöðrunnar stafi af hlýnandi loftslagi eða hvort um einangrað tilvik sé að ræða.  Eins gæti verið um að ræða blöðru síðan 17.júní hátíðarhöldin voru hér á landi í síðustu viku, eða þann 17.júní síðast-liðinn.  

Mikill víðbúnaður er nú að staðnum (jafnvel bara víg-búnaður) og allt verður gert til að gæta öryggi gesta Smáralindar. Blaðran verður ekki skotin niður nema í algjörri nauðvörn. 

Nánar verður fylgst með málinu á öllum fjölmiðlum landsins og flestum Blogg-síðum. Ef einhver sér eitthvað sem líkist einhverju má endilega láta einhvern vita. Sjaldan er ein blaðran stök.

 
mbl.is Bjarndýrsútkall í Langadal
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þórunn Ísbjarnardóttir 007 - licence to kill

Það er nú ekki mikið hægt að segja við þessu úr því sem komið er. Umhverfisráðherra gungaðist á þessu og fór auðveldustu leiðina, alla vega á þeim tímapunkti. Ekki hægt að taka þá ákvörðun til baka eða finna betri lausn. Sitjum bara uppi með ákvörðun hennar og getum ekki sagt "hvað ef" ?

Ég er reyndar ekki hlutlaus, enda heiti ég Björn. Það kom þó ekki í veg fyrir að Þórunn Sveinbjarnardóttir, hér eftir nefnd Ísbjarnardóttir, finndi til með dýrinu og leyfði því að njóta vafans. Varla margir á ferli þarna.

 Ég tel ísbjörnin varla hættulegri heldur en margir ökumenn sem fara þarna um eða aðra vegi landsins. Spurning um að taka upp sömu taktík hjá lögreglunni. Bara skjóta frekar en missa ökumenn í þoku eða myrkur eða bara út í buskan.

 Blessuð sé minning nafna.

Björn 


mbl.is Ísbjörninn felldur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þetta er klár kona

Frekar hallærislegt blog hér á undan að Mæja sé myndarleg stelpa, fyrir það fyrsta er það nú engin frétt því það sjá allir. Leiðinlegt þegar menn blogga um fréttir en bæta engu við, en þessi á undan skrifar þó að hún sé vel að starfinu komin, sem er líka frekar augljós. Jæja ekki meira um það. Þori ekki að commenta um það hvort hún sé stelpa eða kona. Dóttir mín væri þó ekki í vafa og myndi segja að hún væri kona.

Hitt er svo annað mál að hún er vel að þessu starfi komin, þekkir starfssemina og er mjög klár/flink og úrræðagóð. Við vorum saman í náminu á Bifröst og vorum nágrannar. Frábært, enn einn Bifrestingurinn kominn í gott starf og því ber að fagna.

Til hamingju með starfið Mæja, vonandi gengur samstarf okkar vel því ég á örugglega eftir að leita til þín vegna vinnunnar.

 kv.

Björn Árni Ólafsson


mbl.is Guðný María ráðin í stað Hrannar hjá FLE
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ódýr auglýsing - snilld

Eftir að hafa fylgst með "Jesú og Júdasi" fyrir ekki svo löngu ákváð Hagkaups-fólkið að gera eitthvað sniðugt, kannski. Hér fyllist allt af Bloggum (36 blog á undan mínu) um þetta snilldar-herbergi sem hefur slegið í gegn og svo er auðvitað spjallað víða um það á kaffistofum. Ég ætla að leika mér aðeins með þetta og gefa mér forsendur sem byggja bara á huglægu mati mínu - þetta er örugglega bara bull.

Kostnaður að mínu mati:

4 stólar á u.þ.b. 50.000 stk.= 200.000 (Innflytjandi Hagkaup)

1 sjónvarp á um 200.000 = 200.000 (Innflytjandi Hagkaup)

Sjónvarpsskenkur og smámublur = 200.000 (Innflytjandi Hagkaup)

Skilrúm, veit ekki hvernig það er = 200.000 (Innflytjandi ?)

Heimild til að sýna frá boltanum, ábyggilega slatti, segjum 20.00 á mánuði = (Innflytjandi 365)

Ég giska á að þetta herbergi skili sínu á 4-5 mánuðum og verði síðan tekið niður (eða bara stólarnir skildir eftir), kostnaður er því um 1.000.00. krónur.

Á vefsíðu Mbl.is má sjá að að hægt er að kaupa auglýsingu á Mbl.is, yfirborði á forsíðu í 4 vikur (til jóla) kostar 631.200 (heimild: http://mbl.is/html/mbl_verdskra_2007.pdf) Ýmsar aðrar leiðir til að auglýsa á Mbl.is en þessi er best og kostar þar af leiðandi mest.

Ég fann ekki hvað dagblaða-auglýsingar kosta, en það eru líka nokkur hundruð þúsund fyrir góða heilsíðu - Giska ég á! Sama á við um aðrar auglýsingar, birtingar kosta slatta.

Þetta er því bara önnur leið til að vekja athygli á risa-stórri og flottri Hagkaups verslun. Staðsett þar sem IKEA var í DEN og Mikligarður í DENN. Ég hef ekki farið, en ég verð að fara þangað með konunni minni og kíki síðan sjálfur í karla-herbergið - ef það verður pláss. Ég vona bara að það verði ekki fullt af konum sem annað hvort horfa á boltann EÐA séu að mótmæla með því að "þaul-sitja" sætin allan daginn svo við karlarnir getum ekki látið konuna "puða" við að versla.

Ein spurning í lokin: "Sjáið þið virkilega ekki í gegnum þetta markaðs-trikk?" Verið ekki að eyða kröftum ykkar í að pirra ykkur á þessu, þá eruð þið bara að leika ykkur í gildrunni.

Verðandi boltahorfandi Hagkaups sófa-sitjari og áhugamaður um markaðssnilld.

Björn Árni


mbl.is Pabbar í pössun í Hagkaupum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Á 200 hö en með grunnþjálfun

Ég skil ekki alveg tilganginn með þessari fyrirsögn eða bara fréttinni ef út í það er farið. Kannski á þessi fullyrðing að vera fyndin en ég sé ekki húmorinn í að ögra fólki til að stinga lögregluna af. Eins sé ég ekki hvað er svona merkilegt við þennan bíl, þ.e. umfram aðra lögreglubíla landsins. Kannski var þetta bara eitthvað sem kom inn á borð blaðamanns nokkuð tilbúið og lítið þurfti að gera við efnið svo það yrði prenthæft þó "frétta-efnið" sé ekki mikið, eða hvað?

1) Ég veit um fólk sem færi létt með að stinga þennan bíl af, sér í lagi ef ökumenn bílsins (lögreglumenn) hafi eingöngu hlotið "grunnþjálfun" í forgangsakstri. Verð nú líka að segja að bíll sem er vel á annað hundrað hestöfl er nú ekki líklegur til afreka.

2) Flestir fjölskyldubílar í stærri flokki eru vel á 200 hestöflin og betri týpurnar vel á 300 hestöflin. Hyundai Santa Fe sem mörg lögregluumbætti eru með er 173 hestöfl, stálplötu undir vélinni, glasahöldurum og gott ef ekki sætishitara. Trúi nú varla að eldri Volvo bílar séu mikið verri en þessi, eða hvað er það kannski fréttin?

Honda Accord er 155 & 190 hö eftir vélarstærð

VW Passat er 115, 150 & 200 hö eftir vélarstærð

Volvo s40 er 140 & 230 hö eftir vélarstærð (sjálfskiptir)

Svo eru það allir sport-jepparnir sem henta vel til að stinga af, geta t.d. farið yfir hraðahindranir á miklum hraða og jafnvel yfir aðrar hindranir. Síðan eru öll mótorhjólin. Ekki það að ég hafi nokkuð vit á þessu, bara séð þetta í bíómyndum og fréttum. En mitt mat er að þessi fyrirsögn sé röng og fréttagildið í fréttinni sáralítið, en sumt er bara skrifað til að vera sniðugt og annað er skrifað sem dulbúin auglýsing. Veit ekki hvað á við í þessu tilviki.

Verð þó að skjóta einu að, því miður man ég þetta ekki nógu vel til að skrifa hvaða ár þetta var. Lögreglan á Suðurnesjum fór í eftirför á eftir ökuníðing, nokkrir bílar tóku þátt og endaði eltingarleikurinn út á Reykjanesbraut. Eftir mikinn eltingarleik kom í ljós að ökuníðingurinn sem ók þessum fína Jeep Cherokee var eingöngu 15 ára. Í því tilviki hefði nú verið gott að vera á Volvo S80 með sérstyrktri botnplötu, glasahaldara og eitthvað vel á annað hundrað hestöfl. Lögreglumennirnir í því tilviki höfðu örugglega hlotið grunnþjálfun og jafnvel meira en grunnþjálfun enda náðu þeir kauða, man ekki hvernig bíla embættið átti þá en það var örugglega ekki S80.

Björn Árni Ólafsson


mbl.is Það stingur enginn lögguna af
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

BMW = frétt / Nissan Patrol = ekki frétt

Síðasta færsla mín snérist um tilhneigingu fjölmiðlamanna að tilgreina stundum bíltegundir í fréttum og stundum ekki. Máli mínu til stuðnings nefndi ég nokkra árekstra eða tjón þar sem tegundir voru nefndar. Sumir bílar eru nefnilega merkilegri en aðrir - alla vega fréttnæmari en aðrir.

 Í Morgunblaðinu nú um helgina (ég er nú áskrifandi) var mynd af bensínstöðvar-bílnum, þar kom greinilega fram að um BMW væri að ræða. Bæði á mynd og í texta. Þessi frétt sem ég fjalla um núna er fjallað um BMW sem fór ekki rétta leið, ekki nóg með það heldur er fyrirsögnin "BMW í grjótinu", sennilegast hefur þetta átt að vera sniðugt.

 Hinsvegar er ekkert minnst á Nissan Patrol í þessari frétt sem sett var inn á MBL.IS skömmu áður:

http://mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1303578

Hér er hinsvegar mynd af þessum laglega Nissan Patrol (ég sjálfur stoltur Patrol eigandi), en ekkert minnst á hvaða tegund var um að ræða. Afhverju var fyrirsögnin ekki "Patrol í grjótinu" eða "Patrol hálfur í sjó"

Mig langar ekki að eiga ómerkilegan og ófréttnæman bíl, mér finnst ekkert gaman að eiga hvítan Nissan Patrol, ég vil eiga BMW helst svartan. Mér sýnist að svartir Bimmar séu mun merkilegri en aðrir.

 Ég spyr mig þó, hvað er að þeim sem geta ekki haldið besta akstursbíl heims á götunni? Um það snýst kannski málið; er það fréttnæmt þegar einhver missir stjórn á BMW? Eða er það að hver er svo sem hissa á því að stöku Patrol fari út af veginum? Þeir bílar eiga kannski ekkert heima á vegum heldur út í móa og uppi á fjalli.

 EÐA HVAÐ ER MÁLIÐ ???

 Björn Árni Ólafsson - Toyota og Nissan Patrol eigandi


mbl.is BMW í grjótinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvenær er bíltegundin frétt eða ekki frétt?

Fyrir nokkrum vikum (24.október) fjölluðu flestir íslenskir fjölmiðlar um BMW sem valt í Kópavogi. Fyrirsagnirnar voru æsilegar: "Brakið úr Bimmanum þeyttist um allt". Reyndar slapp fólkið lítið meitt og var ekki einu sinni lagt inn. Margir hneykslaðust á að bílstjóra og farþega væri sleppt enda dómstóll götunnar harður.

Í gær fjallaði vísir.is um Cadilac sem brann nálægt Mosfellsbæ, það kom fram í fyrirsögn að um Cadilac væri að ræða (gamall virðulegur bíll, gæti flokkast sem menningarverðmæti?). Á Mbl.is var tegundinni sleppt í fyrirsögn en í meginmál fréttarinnar kom fram að um Cadilac hefði verið að ræða.

Þann 25.október þyngdi Hæstiréttur dóma í BMW smyglmáli, þeir menn voru víst ekki að smygla BMW heldur einhverju allt öðru.

 Því er eðlilegt að ég spyrji, hvernig bíll var þetta sem fór inn í bensínstöð í nótt. Eru sumar bíltegundir merkilegri en aðrar, mér sýnist það.

Björn Árni Ólafsson

mynd

Mynd af vísi.is, frétt frá 24.okt 

Hér er mynd af sundurtættum BMW, vantar reyndar framendan (viljum ekki fá hann í farþegarýmið). Glöggir sjá að afturrúður bílsins eru ekki einu sinni brotnar og farþegahurðin leggst nánast fullkomnlega við boddý bílsins. Sem þýðir að ekki er mikil skekkja í farþegarými bílsins, hann tættist sem sé ekki meira en þetta.


mbl.is Bifreið gjöreyðilagðist er hún þeyttist á bensínstöð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bernskuminning

Ef Kaninn fer þá koma Rússarnir daginn eftir !!!

Mikið hefur breyst síðan ég ólst upp í Njarðvík hér á áttunda og níunda áratugnum (fæddur 1974). Í kaldastríðinu héldum við strákarnir allir með Kananum á móti Sovét, annað hefði verið svik við málstaðinn. Við hneyksluðumst á Keflavíkurgöngum og herstöðvar-andstæðingum. Þetta fólk vissi nefnilega ekki eins mikið um málin og við strákarnir. Við vissum að ef Kaninn færi þá kæmu Rússarnir daginn eftir. (töluðum yfirleitt um Rússa þó þetta væru Sóvet-menn)

Það yrði skelfilegt, í raun endir á svo mörgu góðu sem við þekktum. Við hlustuðum á Kanann í útvarpinu (kana-sjónvarpið því miður hætt á þessum árum) enda engin tónlist að okkur mati á gufunni (engin Rás2). Við hættum að fá útlenskt nammi frá börnum varnaliðs-starfsmanna og litlu flottu Kornflex pakkana sem innihéldu allskonar tegundir sem ekki fengust á "Íslandi" heldur bara á vellinum. Kalda stríðið snerti okkur djúpt. Við vissum svo mikið, við vissum t.d. að það væru 3 kjarnorkusprengjur í Rússlandi sem væru stilltar beint á Ísland. Við sem bjuggum við völlinn voru því daglega í lífshættu - vonandi ýtti enginn óvart á takkann.

Hér áður fyrr var auðvelt að komast inn á völlinn. Grænásblokkirnar voru inn á svæðinu og við sögðumst vera á leiðinni til vinar okkar. Vissum auðvitað hverjir bjuggu þar, lugum að löggunni og gengum að blokkinni. Laumuðumst svo yfir móann og skelltum okkur í keilu. Síðan var líka gott að eiga dollara því þá gátum við sjálfir keypt nammi í sjálfsölunum sem voru í anddyrum flestra blokkanna. Á þessum árum var ekki auðvelt að kaupa dollara, þurfti að framvísa farseðli í bankanum. Fyrir sunnan seldu þó leigubílstjórar dollara - ekki bara áfengi. Já lífið var ljúft í gamla daga, þetta breyttist þó á unglingsárum mínum og erfiðara var að komast uppeftir. Girðingin var færð ofar og flugstöðin ekki lengur inn á svæðinu.

Aðal leikvöllur krakkana sem bjuggu okkar megin við Þjóðveginn (ofan við þjóveginn miðað við sjóinn) var gömul braggabyggð. Þar fyrir neðan var síðan hjóla-vegur, í raun heilt gatnakerfi markað ofan í móann og moldina. Hjólavegurinn endaði við varnar-girðingunna og við sáum oft hermenn aka þar fyrir innan á herjeppunum sínum. Stundum stoppuðu þeir og kíktu yfir svæðið. Sennilega hefur þeim fundist þetta skondin sjón að sjá tugi krakka þegar best lét á hjólunum sínum í drullu og mold. Þeir sáu okkur sem sakleysingja en það var ekki gagnkvæmt, oft stukkum við niður í börðin og földum okkur. Stöku sinnum sáu þeir hugrökku sem ráku höfuðið upp úr moldarbarðinu að hermennirnir voru með rifflana sína og horfðu í gegnum kíkinn.Í dag grunar mig að engir hafi rifflarnir verið í þessum bílun - alla vega notuðu þeir þá ekki sem kíki. Hitt gerði lífið svo skemmtilegt og spennandi, við upplifðum okkur sem þátttakendur í blóðugu stríði.Kalda stríðið var þó aldrei stríð heldur pólítísk spenna og pissukeppni, þó ógnin væri vissulega til staðar.

Á síðasta ári fór síðan herinn og skildi allt dótið eftir. Tóku þó keilubrautirnar með sér held ég og sjálfsalana en blokkirnar standa þar enn. Ég verð að gera mér ferð suður á Völl og skoða þetta. Nú loksins loksins eru Rússarnir komnir, eitthvað sem við strákarnir vissum alltaf að myndi gerast. Þeir eru bara ári of seinir, komu ekki daginn eftir líkt og við óttuðumst hér á hjólastígnum.

Björn Árni - fyrrum kaldastríðs barn


mbl.is Rússneskar sprengjuflugvélar fóru inn á íslenska flugstjórnarsvæðið
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kjarftæði...

... sénsinn bensinn að útiloka heilt lið. Formula1 er bisness og með þessu er verið að henda peningum út um gluggann.

 

Neibb, þessu trúi ég ekki.


mbl.is McLaren sagt útilokað frá keppni 2007 og 2008
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband